Vandað, bjart og nútímalegt

Íbúðirnar við Hlíðarhorn eru bjartar og nútímalegar, nýta bestu fáanlegu lausnir í efnisvali og tækni, og eru lagaðar að fjölbreytilegum þörfum nútímafjölskyldunnar.

Markmið okkar er ávallt að skila íbúð þar sem nýjum eigendum líður vel frá fyrsta degi – Helgi Indriðason, arkitekt, F.A.Í.

Sólríkur inngarður

Hlíðarhorn er „randbyggð“, þar sem byggingarnar liggja að götu á alla kanta en deila stórum inngarði í miðju. Garðurinn er lokaður fyrir bílaumferð og með upplýsta göngu- og hjólastíga, tjörn og leiksvæði. Sólin skín úr suðri beint inn í inngarðinn á milli húsanna á meðan norður- og austurhliðar húsanna veita skjól fyrir ríkjandi vindáttum. Útisvæði íbúða á jarðhæð eru afmörkuð með lágum timburskjólveggjum en að öðru leyti er garðurinn sameiginlegur fyrir alla íbúa.

Innanhússhönnun

Efnisval og frágangur er í þremur grunnlínum sem við köllum „Mjöll“, „Móa“ og „Hlíð“. Allar íbúðir eru afhentar tilbúnar til notkunar með innréttingum og tækjum í eldhúsi.

Hlíð 1

Hnotuþema í innréttingum og gólfefnum. Ljós steinn á borðum og leirljósar flísar á votrýmum. Vönduð blöndunartæki frá Mariner í gull-kopar í eldhúsi en mött svört á baðherbergi. Svört eldhústæki frá Siemens. Bjart og sérlega vandað.

Hlíð 2

Koksgráar viðarinnréttingar og grip. Svartar steinplötur á borðum, leirljósar flísar á votrýmum og dökkt gólfefni. Mariner Kobra blöndunartæki í byssubláu stáli („gunmetal“) og eldhústæki frá Siemens í svörtu stáli. Klassískt og virðulegt.

Mói 1

Gráar innréttingar og dökk gólfefni. Svartur steinn á borðum og dökkgráar flísar á votrýmum. Vönduð blöndunartæki frá Mariner í byssubláu stáli og svört eldhústæki frá Siemens. Fágað og nútímalegt.

Mói 2

Gráar, mattar innréttingar og dökk gólfefni. Svartar steinplötur á borðum og gráar flísar á votrýmum. Dökkt Berry Alloc Elite gólfefni, Mariner Kobra blöndunartæki í byssubláu stáli („gunmetal“) og eldhústæki frá Siemens í svörtu stáli. Klassískt og virðulegt.

Mjöll 1

Hvítar innréttingar og ljósar steinplötur á borðum. Viðhaldsfrítt og slitsterkt vinylgólfefni frá Berry Alloc (ljós eik) og steingráar flísar á votrýmum. Vönduð blöndunartæki frá hinu margverðlaunaða Mariner á Ítalíu og eldhústæki frá Siemens. Einfalt og stílhreint.

Mjöll 2

Satín-ljósar innréttingar, sökklar og inngreiptar höldur. Ljósar steinplötur á borðum. Viðhaldsfrítt og slitsterkt vinylgólfefni með breiðum borðum (Elite Natural) og leirljósar flísar á votrýmum. Blöndunartæki úr burstuðu krómi frá Mariner og eldhústæki frá Siemens. Vandað og þaulhugsað.

Mjöll 3

Leirlitar innréttingar og inngreiptar höldur. Ljósar steinplötur á borðum. Viðhaldsfrítt og slitsterkt vinylgólfefni með breiðum borðum (Elite Natural) og leirljósar flísar á votrýmum. Ítölsk Mariner Kobra blöndunartæki í burstuðu krómi og eldhústæki frá Siemens. Innblásið af skandinavískri nútímahönnun.

Ferskt loft í öllum herbergjum

Hver íbúð er með sjálfstætt loftræsikerfi frá þýska framleiðandanum Blauberg. Loftræsingin dregur inn ferskt útiloft og dælir því inn í herbergi og stofu, en sogar loft út af baði, þvottahúsi og eldhúsi. Kerfið er með varmaendurvinnslu og nýtir við bestu aðstæður allt að 93% af varmanum. Allt loft sem fer í gegnum kerfið er síað og er því minna af svifryki og frjókornum í íbúðunum en ella. Kerfinu er stýrt á vegg eða með appi í snjallsíma. Eldhúsháfur er innbyggður í loftræstikerfið.

Kjallari fyrir bíla og reiðhjól

Í kjallara eru 101 bílastæði, þar af 9 fyrir hreyfihamlaða og 2 fyrir deilibíla. Bílakjallarinn er opinn fyrir almenn stæði og verður með gjaldskyldu og myndavélaeftirliti. Stæði eru ekki seld með íbúðum, en íbúar geta leigt stæði til lengri eða skemmri tíma. Tvö stæði fyrir reiðhjól fylgja hverri íbúð, langflest í læstri geymslu. Hjólastæði fyrir gesti eru á 3 stöðum. Geymslur fyrir barnavagna eru þægilega staðsettar í hverjum stigagangi.

Öllum íbúðum fylgir geymsla í kjallara. Oftast er um að ræða læst geymsluhólf sem er afmarkað með stálgrindum og plötum og loftræst sem hluti af sameiginlegu rými.